Uppeldi sem virkar - færni til framtíðar

Námskeiðið byggir á bókinni, Uppeldisbókin – Að byggja upp færni til framtíðar. Bókin er byggð á traustum fræðilegum grunni og er sérstaklega skrifuð fyrir foreldra. Í bókinni er fjallað um uppeldi og samskipti við börn frá fæðingu fram til unglingsára. Áhersla er lögð á kennslu æskilegrar hegðunar til að fyrirbyggja erfiðleika í uppeldinu en einnig eru fræðsla um hvernig taka má á ýmsum erfiðleikum sem geta komið upp. Námskeiðið samanstendur af stuttum fræðsluerindum, verkefnum, æfingum og umræðum. Hvert námskeið er alls 8 klst og kennt er einu sinni í viku, tvær klukkustundir í senn. Fjöldi þátttakenda á hverju námskeiði er 10-14. Námskeiðið kostar 7.000 kr. Á námskeiðinu er farið yfir fjölmarga þætti sem skipta máli fyrir árangursríkt uppeldi eins og til dæmis: Færni og styrkleika sem mikilvægt er að foreldrar búi yfir og hvernig hægt er að tileinka sér þá. Að nota virka hlustun, athygli og eigið fordæmi markvisst í uppeldi. Aðferðir sem duga til að takast á við algeng vandamál svo sem væl, suð, reiðiköst, óhóflegt sjónvarpsáhorf, svefnvandamál og fleira. Gildi markmiðasetningar í uppeldi og hvernig fordæmi foreldra og annarra getur ýmist kennt börnum æskilega eða óæskilega hluti.